Saturday, February 9, 2008

Tallinn Helsinki Reykjavik Tallinn (med millilendingu i Koben og Stokkholmi)

Nú eru liðnar tvær fyrstu vikurnar á önninni og allt komið í gang aftur eftir nokkuð langt jólafrí. Reyndar var þetta bara fyrsta vikan sem ég mæti í skólann því ég fór til íslands og skrópaði fyrstu dagana skólanum.

Það var ótrúlega fínt að kíkja aðeins heim á klakann þó svo að tilefni ferðarinnar hafi nú ekki verið af gleðilegum toga. Ég fór nefninlega til að mæta í jarðarför Gunnars Rósmundssonar, sem var mér alltaf mjög góður og því fannst mér sjálfsagt að fljúga heim til að kveðja hann.
Fyrst ég var að fara til Íslands yfir höfuð fannst mér náttúrulega ekkert vit í öðru en að stoppa aðeins og sjá hvers ég er búinn að sakna. Ég hef átt það til að sakna veðráttunnar heima (nei, ég er ekki geðveikur!). Veturinn hérna er búinn að vera frekar einsleitur, yfirleitt grár himinn og lítill snjór. Hitastigið yfirleitt ca. +6 - 7 gráður og rakt loft. Vantar alla fjölbreytni í þetta, og hana fékk ég heldur betur á Íslandi! Veðrið var klikkað og miðað við fréttirnar í blöðunum í dag hefur það bara versnað. Almennilegt!
Þetta er nú farið að skána hérna reyndar, greinilega farið að birta aðeins og síðustu daga hefur bara verið svolítið vor í lofti. Reyndar er búinn að vera óeðlilega mildur vetur hérna í ár. Venjulega ætti að vera ca. -20 stig á þessum árstíma, en nei, kalda loftið fór frekar til íslands í ár. Ótrúlegt hvað ísland er orðið vinsælt!



Hér má sjá týpísk Tallinn hús, í týpísku vetrarveðri.

Svo var það nú fleira sem ég gat gert heima á fróni t.d. fá kvef, hitta vini og fjölskyldu og bara slappa af. Ég náði náttúrulega ekkert að hitta alla sem ég vildi hitta, en það bíður bara betri tíma.

Svo flaug ég hingað á föstudaginn í síðustu viku, hitti gamla tónheyrnarkennarann minn á flugvellinum og skemmtilega listnema úr Iðnskólanum ásamt kennara sínum á leið til Finnlands í námsferð. Þannig að ferðalagið var fínt.
Þessi kennari úr Iðnskólanum hafði kennt Sóley þegar hún var þar og var að sjálfsögðu ekki lengi að tengja við hverra manna ég væri. Skemmtilegur siður hjá Íslendingum að spyrja hverra manna maður er og tengja svo saman.

Þegar heim var komið þótti ekki ástæða til að slappa af heldur var farið beint í partí! Hér má sjá nokkrar myndir. Myndavélin er semsagt komin aftur úr viðgerð þannig að við getum farið að birta glænýjar myndir aftur.



Margit og Kärt héldu uppi stuðinu.



Ég á spjalli við Tõnis sem er kærasti Margit og gítarleikari indie hljómsveitarinar Pia Fraus. Hann "heldur utan um" mynd af Eistneskum poppara sem heitir Tõnis Mägi, eitt af hans vinsælustu lögum heitir Soley, Soley.

Sóley notaði tækifærið þegar ég fór til íslands og fór til Helsinki að heimsækja tvo gamla skólafélaga úr LHÍ. Við fórum semsagt saman þangað snemma morguns, skoðuðum bæinn og hittum fólk, svo var ég farinn seinnipartinn áfram út á flugvöll en sóley varð eftir yfir helgina.
Hún kom svo heim með nýtt borð í stofuna frá Helsinki. Þeir mega eiga það finnarnir að vera miklir smekkmenn þegar kemur að hönnun. Miðbær Helsinki er meira og minna fullur af búðum sem selja finnska hönnun, og eru óhræddir við að verðleggja nokkuð hátt.
Við íslendingar megum alveg taka okkur þá til fyrirmyndar í þessum málum. Markaðsetja það sem við eigum í stað þess að kappkosta að geta boðið útlendingum upp á sama mat, sömu föt og sömu húsgögn og þeir eiga að venjast heima hjá sér.

Annars er bara ótrúlega gaman hjá okkur hérna. Erum búin að kynnast þónokkuð af nýju fólki og ... já, hvað getur maður sagt? Allt gott bara!

Hér fyrir neðan eru myndir sem Sóley tók í dag af húsum hér í borginni. Fannst skemmtilegt að setja inn myndir af einhverju öðru en þessum venjulegu úr gamla bænum. Tallinn á sér merkilega sögu og það má lesa hana í gegnum byggingarnar.



Vinkona okkar á íbúð í þessu húsi. Held að þetta sé uppáhalds húsið mitt í Tallinn. Þetta er gömul pappírsverksmiðja sem var breytt á svona skemmtilegann hátt. Frábærlega unnið með gamla og nýja tímann saman. Hluti af verksmiðjunni stendur svo ennþá tómur. Útsýnið frá svölunum hennar æðislegt.



Gamla góða Sovétblokkin.



Á Sovét tímanum áttu bara allir að vinna í verksmiðjum, svo einfalt var það. Þannig að í dag er hellingur af gömlum verksmiðjuhúsum sem bíða örlaga sinna. Á að gera þetta upp, eða bara rífa niður?
Í miðbænum er gamalt verksmiðjuhverfi sem verið að koma í not aftur. Ekki þá sem verksmiðjur heldur verslanir og ýmsa þjónustu. Gömlu húsin standa ennþá og eru bara gerð upp, og svo byggð ný inn á milli. Þetta er gott dæmi um hvað er hægt að gera vel upp gömul "ónýt" hús.