Thursday, September 6, 2007

S - Eistland

Við fórum í ferðalag um helgina með vinum okkar, þeim Margit, Karin og bandarískum eiginmanni hennar, Jeff. Þannig er að Margit var fyrir nokkuð löngu síðan búin að bjóða okkur að koma með henni í sveitina þar sem amma hennar býr í S - Eistlandi og þar sem að Karin og Jeff, sem búa í NY voru bæði á landinu þótti tilvalið að fara í hópferð í sveitina.
Það var mjög skemmtilegt að sjá þennan hluta landsins sem er nokkuð ólíkur umhverfinu hér í Tallinn, svolítið eins og að vera komin einhvert aftur í tímann.
Þetta var mikið ævintýri og við náðum að gera ansi mikið á þessum stutta tíma. Við fórum m.a. í skóginn og týndum sveppi í matinn, heimsóttum nágranna sem buðu okkur í kaffi og með því, fórum í reyk-sauna og vöktum við varðeldinn frameftir nóttu.



Fyrsta regla þegar haldið skal í ferðalag: ekki leigja ódýrasta bílinn í bænum! Þessi gafst upp í miðbæ Tallinn... haha! Við hringdum og kvörtuðum og það var komið með annan í staðinn, þann næstódýrasta:)



Þarna erum við lögð af stað í "nýja" bílnum okkar og eins og sjá má þá var stemmningin ótrúleg.



Þetta var ca. 3 tíma keyrsla og gott að komast á áfangastað.





Þarna má sjá okkur á sveppaveiðum. "Veiðin" úr þessari ferð var borðuð með bestu lyst seinna um kvöldið.




Við skruppum í heimsókn til vinkonu Karin sem var stödd á næsta bæ. Þar var tekið ótrúlega vel á móti okkur með kaffi og bakkelsi.



Að heimsókn lokinni fórum í "fjallgöngu" á hæsta tind Eistlands, en hann er u.þ.b. 300 metra hár. Eins og sjá má erum við alveg uppgefin eftir að labba upp TRÖPPURNAR á hann!




Um kvöldið fórum við í reyk-sauna. Þetta er hefð sem við Íslendingar tengjum oft við Finna, en Eistar eru líka mikið sauna fólk. Fyrir þá sem ekki vita hvernig þetta virkar skal ég útskýra: Fyrst er kveiktur eldur og hann látinn deyja út, jafvel bætt á hann nokkrum sinnum brenni í millitíðinni til þess að eftir verði eldheit kol. Meðan á þessu stendur er saunan auðvitað full af reyk og ekki hægt að vera þar inni. Svo er soðið vatn. Þegar eldurinn er slokknaður (ca. 2 tímum seinna) er farið með vatnið út í saununa og þá er hægt að fara að hefja leikinn. Vatninu er svo helt á heit viðarkolin og þannig gýs upp mikill hiti. Svo er bara setið og svitnað, og hlaupið reglulega út til að kæla sig niður. Þegar nokkuð er liðið á, er góður siður að sprauta á sig, eða láta sprauta á sig ískölu vatni (á veturna er náttúrulega bara hlaupið út í snjóinn). Eftir allt þetta þvær maður sig hátt og lagt og lykar svo af reyk það sem eftir er vikunnar. Hljómar þetta ekki vel? Þó að mér hafi nú stundum fundist þetta full mikið af hinu góða, þá mæli ég eindregið með þessu fyrir alla.



Á myndinni hér að ofan má sjá okkur fá okkur að borða eftir saununa (auðvitað afrakstur sveppatýnslu dagsins).



Svo var sest við varðeldinn og hlegið fram eftir nóttu.



Hér má sjá mynd af okkur í Tartu, sjarmerandi háskólabær sunnarlega í Eistlandi þar sem við stoppuðum stutt við á leiðinni í bæinn aftur.

Í öðru fréttum er það helst að við erum flutt í íbúð í miðbænum þar sem við verðum allavega næstu tvö árin. Við erum alveg einstaklega ánægð með hana og líður vel. Við munum skella in myndum af henni fljótlega.
Svo erum við bæði nýbyrjuð í skólanum þannig að það er bara allt í gangi - meira síðar.

Monday, September 3, 2007

Sumarskoli no. 2

Við erum ekki búin að vera mjög dugleg í bloggfærslum upp á síðkastið. "vandamálið" er einfaldlega að það er svo mikið að gerast hjá okkur að bloggið verður útundan. við biðjumst velvirðingar.
Síðustu tvær vikurnar er ég búinn að vera á tónsmíðanámskeiði í skólanum sem heitir "crossing borders, once again". Þetta er svona sumarskóli þar sem að fólk allstaðan að úr evrópu kemur til að læra, hljóðfæraleikarar og tónskáld. Námskeiðið endaði svo á tónleikum þar sem flutt var lítið verk eftir mig, klarínettu mineatúr - kom bara vel út.
það var skemmtileg tilviljun að tónsmíðakennarinn minn þarna var gamli kennarinn minn úr LHÍ, Dr. Úlfar Ingi Haraldsson, gaman að hitta hann aftur, en svo þegar skólinn byrjar taka aðrir kennarar við.
það var gaman að hitta þarna fólk sem er í svipuðum pælingum og maður sjálfur, en samt með ólíka sýn á viðfangsefnið. stækkar alltaf smámsaman heiminn fyrir manni.

jæja, nú fer bilið á milli bloggana hjá okkur vonandi að styttast. sýnið okkur smá þolinmæði:)



þetta er bekkurinn minn á námskeiðinu ásamt úlfari, kennaranum okkar.