Wednesday, November 21, 2007

Berlín

Já, ég veit, ég veit... ég var búinn að lofa miklu og góðu bloggi en svo liðinn ég veit ekki hvað langur tími síðan ég bloggaði síðast. En örvæntið ekki, þetta á sér eðlilegar orsakir, það er einfaldlega svo mikið að gera hjá okkur. Já, það er bara allt á fullu.

Sóley er í skólanum heilu dagana og lærir svo fram á kvöld, og það er farið að styttast í deadline hjá mér (eða ég hélt það þangað til mér var sagt í gær að kórinn sem átti að flytja verk eftir mig núna í desember baðst vægðar vegna anna og mun flytja það í febrúar). En það er bara besta mál, ég er búinn með eitt stykki kórverk samið upp úr ca. fyrsta fjórðungi "Gunnarshólma" eftir afmælisbarnið Jónas Hallgrímsson. Ljóðið er svo fjandi langt að ég ákvað að byrja bara á þessu og sjá svo til hvort ég klári það síðar. Ef þetta kemur vel út á tónleikunum má búast við framhaldi... svipað eins og með hollívúdd myndirnar, ef sú fyrsta meikar það, þá kemur nr. 2 svo 3 o.s.fr.v.... haha:)

En þrátt fyrir annir, þá hikum við ekki við að vera kærulaus líka (við erum fullorðin, við megum það!) og skelltum okkur til Berlínar um daginn að heimsækja Þóru, systur mína og familíu. Tilgangurinn var reyndar tvíþættur, því við vorum líka á leiðinni til að sjá Arcade Fire - eina af uppáhaldshljómsveitum okkar. Meira um það síðar.

Það var æðislegt að koma aftur til Berlínar eftir 7 ára fjarveru. Borgin hefur breyst þónokkuð mikið á þessum tíma á sumum stöðum meðan aðrir staðir eru eins og þegar við vorum þar síðast.Fjörið byrjaði um leið og við lentum þegar við vorum drifin beint í sendiráðið á tónleika þar sem flutt voru sönglög Atla Heimis við ljóð áðurnefnds Jónasar Hallgrímssonar (he´s so hot right now...!). Það var mjög gaman og við hittum þar fólk sem við þekkjum frá Íslandi og að sjálfsögðu var farið í eftirpartí. Þar sem Íslendingar eru samankomnir, þar er eftirpartí!Okkur var boðið að koma í heimsókn í sendiráðið daginn eftir til að fá "guided tour" til að sjá bygginguna, en hún er nefninlega hönnuð af PK. Arkítektum, stofunni sem Sóley var að vinna á. Mjög gaman að fá svona gestrisni, takk fyrir okkur.
Sama dag röltum við um þetta sama hverfi og skoðunum arkítektúrinn á sendiráðunum þarna í kringum.Svo var náttúrulega kíkt á Potsdamer Platz, farið þaðan yfir í Mitte sem er austan megin og bara göturnar mældar.

Um kvöldið var komið að því að fara á Arcade Fire. Tónleikarnir voru stórkostlegir, ekkert minna. Aracde Fire er án efa eitt besta band sem hægt er að sjá í dag. Þetta var í ca. 2000 til 2500 manna sal í Kreutzberg, "Kolumbiahalle". Við vorum uppi á svölum þar sem við sáum yfir sviðið og áhorfendurna, það var sérstaklega gaman að horfa yfir áhorfendaskarann og hvernig hljómsveitin dáleiddi fólk frá fyrsta lagi.
Það er gefandi að sjá hljómsveit spila sem hefur yfir svona mikilli orku að búa, og kemur henni yfir til áhorfendanna í gegnum lögin með mögnuðum flutningi sínum. Einn þeirra helsti styrkur liggur í gríðarlega flottum laglínum, mun dýpri og fallegri en almennt heyrist á rokktónleikum.
Þar sem við tókum engar myndir á tónleikunum þá skelli ég hér inn link frá Jules Holland, honum er vonandi alveg sama.

Daginn eftir var kíkt í nýlistasafnið, aðallega til að tékka á arkítektúrnum sem var frábær. Þvínæst kíkt á gyðinga-memorial reitinn rétt á hjá Brandenborgarhliðinu, í miðborg Berlínar... klikkuð stemmning. Voða flott, en soldið spes allt saman...
Um kvöldið fórum við í afmæli með Þóru og Kristjáni til vina þeirra.

Laugardagurinn var tekinn í að labba um Mitte svæðið og mæla út búðir og veitingastaði. Við komust að þeirri niðurstöðu að gömlu Sovét blokkirnar á Alexanderplatz væru fallegasti hluti Berlínar, austrið greinilega búið að skjóta rótum í hjörtum okkar:)

Í svona stórri borg eyðir maður ansi miklum tíma í samgöngur, soldið skrítið fyrir Íslendinga sem eru vanir að komast frá A til B á 5 mínútum.Sóley og Þór tóku leik í billjard. Drengurinn er efnilegur!Það fór vel um okkur í eldhúsinu hjá Þóru.

Þessi ferð var alveg frábær, og það má gera fastlega ráð fyrir að við munum sjást meira þarna á næstunni. Notum tækifærið og þökkum Þóru, Kristjáni, Löru og Þór fyrir gestrisnina.

No comments: